MATURINN
Beint frá býli
Í litlum dal handan Tungufljóts, skammt frá Hrífunesi, má finna paradís fyrir þá sem hafa áhuga á úrvalshráefnum í matargerð. Býlið Borgarfell er margverðlaunað fjölskyldufyrirtæki sem vinnur neytendavænar kjötvörur úr eigin hráefni. Býlið er frægt í sveitinni fyrir sauðfjárrækt og inni í bænum blasa við heilir veggir þaktir medalíum og verðlaunaskjöldum. Á hverju ári er lambakjötið frá Borgarfelli sérstaklega eftirsótt vegna þess að kjötið þykir meyrara og bragðmeira en annað lambakjöt.
Verðlaunaskreytt ræktun
Sigfús og Lilja á Borgarfelli hafa eytt lunganum af ævinni í að fullkomna ræktunaraðferðir á verðlaunasauðfé sínu þar sem mikil áhersla er lögð á próteinríkt, meyrt lambakjöt með hóflegu fitumagni. En til viðbótar við verðlaunaræktunina hafa þau aðgang að kjarrinu, villiblómunum og hvönninni í Hrífunes Nature Park sem gefur kjötinu frá Borgarfelli bragðforskot á annað lambakjöt. Strax frá fæðingu er tryggt að lömbin fái gott atlæti og kappkostað að þau verði aldrei fyrir fóðurskorti eða áföllum sem tryggir stöðugan vöðvavöxt þannig að hlutfall vöðva og fitu verði sem æskilegast við slátrun.Við slátrun eru á Borgarfelli viðhafðar nýtískulegar aðferðir til að hámarka gæði kjötsins. Lömbunum er slátrað í litlu handverkssláturhúsi sem er einungis í 40 kílómetra fjarlægð, er lágmarkar streitu í flutningi. Yfirleitt er sláturfé keyrt langar vegalengdir sem veldur streitu og vanlíðan hjá búfénaðinum en það er er talið valda rýrnun á bragðgæðum. Eftir slátrun fær kjötið frá Borgarfelli að hanga lengur og það er kælt hægar en annað lambakjöt sem eykur meyrni. Yfirleitt setja stærri sláturhús lambaskrokka hratt í frost og þeir fá því ekki að hanga jafn lengi og kjötið frá Borgarfelli.
Bestu bitarnir
Íbúar Hrífunes Nature Park geta verslað beint við Borgarfell og keypt lambakjöt sagað að eigin óskum og sérstaklega vaccumpakkað. Hægt er að fá heila skrokka eða skrokkhluta svo sem læri, hryggi, sneiðar og jafnvel úrbeinað lambakjöt. Borgarfell býður einnig upp á úrvals lambapylsur, ölpylsur og morgunverðarpylsur sem henta vel á grillið. Uppskriftirnar fyrir þær hafa verið lengi í þróun og ábyrgst er að einungis hágæðavöðvar fari í pylsurnar, án allra aukaefna. Fyrir hátíðarnar býður Borgarfell upp á grafið ærkjöt og hangikjöt sem er reykt með laufguðu birki frá Hrífunesi. Einnig fæst langreykt ærkjöt, bjúgu, ærhakk, gúllas og áleggspylsur fyrir dögurðinn með fjölskyldunni. Aðstaða Borgarfells uppfyllir hæstu gæðakröfur og fyrirtækið er með öll tilskilin leyfi frá Matvælastofnun Íslands. Kjötvinnslan leggur áherslu á vönduð vinnubrögð í framleiðsluferlinu til þess að tryggja rekjanleika, gæði og öryggi vörunnar.
Þetta er einungis brot af því sem Hrífunes Nature Park hefur upp á að bjóða. Ef þú vilt vita meira eða hefur einhverjar spurningar, ekki hika við að hafa samband.